Minningarstund 11. febrúar kl. 11:00

Minningarstund 11. febrúar kl. 11:00

Minningarstund í Hafnarfjarðarkirkju, 11. febrúar 2024.

Dagana 30. janúar til 18. febrúar 1959 féll dimmur skuggi yfir Danmörku, Grænland, Færeyjar, Nýfundnaland og Ísland. Alls fórust á 20 dögum 153 menn, konur og börn frá þessum löndum í fjórum sjóslysum.


30. janúar fórst danska Grænlandsfarið Hans Hedtoft með 95 manns við Hvarf.
9. febrúar fórst Nýfundnalandstogarinn Blue Wave með 16 manns suður af Nýfundnalandi.
8. eða 9. febrúar fórst Hafnarfjarðartogarinn Júlí með 30 mönnum norðaustur af Nýfundnalandi.
18. febrúar fórst vitaskipið Hermóður vestur af Reykjanesi með 12 mönnum.

Þessa fólks var minnst eftir slysin með minningarguðsþjónustum í löndunum fimm.

Sunnudaginn 11. febrúar n.k. þegar 65 ár eru liðin frá slysunum og verður þeirra minnst með minningarguðsþjónustu í Hafnarfjarðarkirkju kl. 11, þar sem forseti Íslands flytur ávarp, biskup Íslands flytur hugleiðingu og prestar kirkjunnar þjóna fyrir altari. Viðstaddir verða sendiherra Danmerkur, fulltrúi í sendiráði Kanada, svo og sendifulltrúi Grænlands. Lesin verða upp nöfna allra þeirra sem fórust með Júlí og Hermóði jafnframt kveikt á kerti fyrir hvern og einn. Einnig verður kveikt á einu kerti fyrir þá sem fórust með Hans Hedtoft og öðru fyrir þá sem fórust með Blue Wave.

Eftir minningarguðsþjónustuna verður opnuð tvíþætt sýning í Ljósbroti, í safnaðarheimili kirkjunnar. Annars vegar verða sýnd fjölskyldutré hvers og eins hinna íslensku sjómanna sem fórust, tekið saman og unnið af sr. Þorvaldi Karli Helgasyni. Hins vegar sýning sem Egill Þórðarson, loftskeytamaður, hefur unnið um sjóslysin og aðstæðurnar  þar sem aðaláherslan verður á togarann Júlí, en hinum einnig gerð skil.

Minningarguðsþjónustan og sýningin er öllum opin.

Verið velkomin. Sunnudagaskóli í safnaðarheimilinu á sama tíma.

Scroll to Top