Barbörukórinn

Barbörukórinn

Barbörukórinn er kammerkór, stofnaður vorið 2007 af Guðmundi Sigurðssyni. Kórinn er skipaður menntuðum atvinnusöngvurum og dregur hann nafn sitt af heilagri Barböru en stytta af dýrlingnum fannst árið 1950 við uppgröft í Kapelluhrauni í Hafnarfirði.  Kórinn kemur reglulega fram við helgihald Hafnarfjarðarkirkju auk tónleikahalds og söngs við útfarir þar og víðar og er þar mikil áhersla lögð á flutning vandaðrar kirkjutónlistar enda er aðstaðan í kirkjunni í miklum sérflokki. Barbörukórinn í Hafnarfirði hefur orð á sér fyrir afar tæran og fágaðan söng.

Barbörukórinn hefur lagt sérstaka áherslu á íslenskan tónlistararf og gaf út geisladiskinn Syngið Drottni nýjan söng árið 2012 þar sem fluttar eru útsetningar eftir þjóðlagafræðinginn Smára Ólason á perlum úr íslenska tónlistararfinum. Diskurinn fékk góðar viðtökur. Við orgelvígslu í Hafnarfjarðarkirkju árið 2009 flutti kórinn einnig nýjar útsetningar eftir Smára sem hann tileinkaði kórnum sérstaklega. Þá tók kórinn tók þátt í frumflutningi nýrra laga Jóns Ásgeirssonar við Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Hallgrímskirkju sama ár.

Sumarið 2015 kom kórinn fram á tónleikum í Marienkirche í Berlín og við messu í Berliner Dom. Við bæði tækifæri var flutt íslensk kirkjutónlist eftir nokkur af fremstu tónskáldum Íslendinga. Haustið 2016 var kórinn valinn sem fulltrúi Íslands á norrænt kirkjutónlistarmót í Gautaborg þar sem kórinn flutti íslenska kirkjutónlist á tónleikum í Vasa kirkjunni þar í borg við góðar undirtektir.

 Í desember 2017 kom kórinn fram í Hörpu á eftirminnilegum tónleikum með hinum heimsþekkta djasspíanista Jan Lundgren og bassaleikaranum Hans Backenroth, þar sem fluttar voru endurreisnarmótettur við spuna Lundgrens. Féllu tónleikarnir í afar góðan jarðveg og hlaut söngur kórsins sérstakt lof gagnrýnanda Fréttablaðsins sem sagði tónleikana meðal bestu tónleika ársins. 

Árið 2018 flutti kórinn Requiem eftir Luis de la Victoria í Kristskirkju í tilefni af Allraheilagramessu. Verkið, sem er að mestu í sex röddum, var samið fyrir útför spænsku keisaraynjunnar Maríu sem lést 1603. Það er jafnframt svanasöngur tónskáldsins og markar á vissan hátt endalok spænsku gullaldarinnar. Flutti kórinn verkið við góðar viðtökur tónleikagesta. 

Vorið 2019 stjórnaði Hilmar Örn Agnarsson kórnum í leyfi Guðmundar Sigurðssonar. Kórinn hélt tónleika í Hafnarfjarðarkirkju með yfirskriftinni Ungfrú Reykjavík fer í heimsferð þar sem gestir fylgdu kórnum eftir í flæðandi rými kirkjunnar og safnaðarheimilis. Uppbygging þeirra tónleika var frábrugðin og sérstök og vakti mikla hrifningu viðstaddra. 

Haustið 2019 frumflutti kórinn 13 verk eftir Auði Guðjohnsen í Hafnarborg. Það má teljast nokkuð einstakt að frumflytja slíkan fjölda verka á einum og sömu tónleikum og hlaut kórinn mikið lof fyrir.  Í september 2021 flutti kórinn djassmessu, A little jazz mass, eftir Bob Chilcott ásamt Tríói Andrésar Þórs í Hafnarfjarðarkirkju við góðar viðtökur.

Barbörukórinn hélt í tónleika- og keppnisferð til Tolosa á N-Spáni haustið 2023 og hélt ferna tónleika fyrir fullum kirkjum og vakti verðskuldaða athygli. Kári Þormar, nýr organisti Hafnarfjarðarkirkju, fylgdi kórnum og stjórnaði.

Í janúar 2024 sendi Barbörukórinn frá sér nýjan hljómdisk undir nafninu Barbara mær. Diskurinn inniheldur ný íslensk kórverk og fóru upptökur fram vorið 2022. Upptökustjóri var Ragnheiður Jónsdóttir og stjórnandi Guðmundur Sigurðsson.  Heilög Barbara var talin vera verndardýrlingur gegn eldi, hruni, jarðhræringum og hita. Árið 1151 eyðilagði hraunstraumur forna vegi á svæðinu í eldgosi. Nýr vegur var þá lagður yfir hraunið og var kapellan byggð til að veita ferðalöngum öryggi á eldsumbrotasvæði.  Titillag disksins, Barbara mær, samdi Hugi Guðmundsson sérstaklega fyrir kórinn við ljóð Þórarins Eldjárn en það var einmitt faðir hans, Kristján Eldjárn, sem fann líkneskið í hrauninu árið 1950.

Verkin á disknum tengjast öll fólki, náttúru og trúarlífi þessa harðbýla lands. Trú þjóðarinnar á æðri öfl var afar sterk hvort sem það var á náttúru, fólk eða guð.  Við val verkanna á disknum lagði Barbörukórinn sérstaka áherslu á að textarnir og tónlistin væru eftir konur til jafns við karla. Verkin eru sungin án undirleiks og skarta hrífandi en jafnframt aðgengilegu tónmáli sem höfðar til breiðs hóps hlustenda.

Við í Barbörukórnum erum stolt af að kynna tónlist eftir Auði Guðjohnsen, söngkonu, tónskáld og stofnfélaga kórsins. Kórinn frumflutti hluta af tónlist hennar á áðurnefndum tónleikum, Tónmáli hjartans, árið 2019 og er diskurinn einnig innblásinn af þeim tónleikum. Auður hefur samið nokkur þessara verka sérstaklega fyrir kórinn. Önnur tónskáld eru Stefán Arason, Bára Grímsdóttir, Þorkell Sigurbjörnsson og Þóra Marteinsdóttir. Öll eru þau kórnum mjög kær og er hann hreykinn af að kynna verk þeirra. Diskinn má nálgast á helstu streymisveitum eins og Spotify og Apple Music og hægt er að panta hann í gegnum heimasíðu kórsins https://barborukorinn.is/  Meðal spennandi verkefna framundan hjá kórnum er hlustunarpartý þar sem gestum verður boðið að koma og hlýða á verkin í fyrsta flokks hljóðgæðum í Bíó Paradís.

Hafið samband: barborukorinn@gmail.is

Scroll to Top