Skírn

Skírn

Hvað er skírn?
– Nafnið
– Skírn fermingarbarna og fullorðinna
– Undirbúningur, viðtal með presti
– Skírnarvottar, guðforeldrar
– Skírnarkerti
– Skírnarkveðja
– Sálmar
– Ritningarlestrar

Skírnin er stærsta og mikilvægasta athöfn kristinnar kirkju. Jafnt börn sem fullorðnir geta þegið heilaga skírn. Sá sem skírist er helgaður Jesú Kristi og er tekinn í samfélag kristinna manna og söfnuð kirkjunnar. Skírn getur farið fram í messu eða í sérstakri skírnarathöfn.

Foreldrar eru hvattir til að bera börn sín til skírnar. Í skírninni þökkum við Guði fyrir skírnarbarnið og biðjum Guð að leiða það og varðveita hér á jörð og um eilífð. Barnið þiggur blessun og viðstaddir sameinast í bæn fyrir því og framtíð þess sem og fyrir foreldrum og fjölskyldu.

Ég kalla þig með nafni þú ert minn/mín’ segir Guð við okkur. (Jes. 43) Nafn skírnarþega er ætíð nefnt við skírnina og hljómar þar oft í fyrsta skipti. Þegar presturinn spyr hvert er nafn barnsins geta foreldrar einnig sagt frá því hví nafnið var valið og hvað það merkir. 

Óskírð börn sem vilja fermast skírast áður en að fermingu kemur. Óskírðu fullorðnu fólki er velkomið að þiggja heilaga skírn hvenær sem það óskar eftir. Skírn fermingarbarna og fullorðins fólks er að inntaki hin sama og skírn nýfæddra barna en undirbúningur sem og framkvæmd tekur eðlilega mið af aldri viðkomandi.

Prestur kallar foreldra barna í viðtal þar sem skírnin er undirbúin. Þar eru m.a. skráðar upplýsingar um skírnarbarnið og foreldra sem presturinn skrifar í kirkubækur eftir athöfnina og sendir einnig til Þjóðskrár Íslands. Einnig er farið yfir athöfnina sjálfa og hvernig hún fer fram. Velja þarf sálma og ræða um hverjir leiði söng eða annist hljóðfærleik ef um það er að ræða. Æskilegt er að einhverjir úr fjölskyldunni lesi ritningarlestrana.

Undirbúningur fyrir skírn fermingarbarna og fullorðinna fer einnig fram með samtali um skírnina og framkvæmd athafnarinnar sem skírnarþegi tekur gjarnan virkan þátt í, s.s. með lestri.

Skírnarvottar (guðfeðgin, guðforeldrar) eru viðstaddir sérhverja skírn. Hlutverk þeirra er gamalt en þeir taka að sér það hlutverk að styðja skírnarbarnið og uppfræða ásamt með foreldrum. Skírnarvottar eru yfirleitt tveir en geta verið þrír eða fjórir.

Við skírnina er gjarnan kveikt á sérstöku skírnarkerti. Um leið eru lesin orð Jesú: ‘Ég er ljós heimsins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.’ Foreldrar láta stundum gera sérstakt skírnarkerti með nafni barns en Hafnarfjarðarkirkja er einnig með handmáluð skírnarkerti.

Í lok skírnarinnar flytur presturinn ávarp og afhendir foreldrum skírnarkveðju, lítinn bækling um skírnina. Þar fremst er skírnarvottorð, þá umfjöllun um skírnina ásamt með bænaversum sem foreldrar og ættingjar eru hvattir til að lesa með barninu.

Sálmar
Eftirfarandi sálma er viðeigandi að syngja við skírn og má finna þá á kirkjan.is. Fjölmarga aðra sálma er einnig mjög við hæfi að syngja við skírnir.

252 Ó, blíði Jesú, blessa þú það barn er vér þér færum nú
503 Ó, Jesú bróðir besti
504 Ástarfaðir himinhæða
551 Í bljúgri bæn
585 Full af gleði fyrir lífsins undri
253 Guð faðir sé vörður og verndari þinn
254 Til þín ég leita
250 Til mín skal börnin bera

Ritningarlestrar við skírn
Hér eru tillögur um ritningarlestra við skírn:

Jesús segir: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá til nafns föður, sonar og hins heilaga anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið yður. Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar. (Matt 28.18-20)

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. (Mark 10.13- 16)

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi. (Sálm 23)

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
Þau seðjast af nægtum húss þíns og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðssemda þinna því að hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós. (Sálm 36.8 – 10)

Scroll to Top