Blómlegt kórastarf fyrir börn og unglinga

Við í Hafnarfjarðarkirkju erum stolt af Barna- og unglingakór okkar. Helga Loftsdóttir, stjórnandi kóranna til margra ára, hefur vakið athygli fyrir þá fagmennsku, umhyggju og alúð sem hún leggur í kórastarfið sem birtist kannski best í því hversu fallega krakkarnir syngja og hversu frjálsleg þau eru.

Nú bjóðum við hjartanlega velkomna til starfa Brynhildi Auðbjargardóttur sem mun stjórna Barnakórnum en Helga Loftsdóttir Unglingakórnum. Brynhildur hefur getið sér gott orðspor í kórastarfi og er sprenglærð á því sviði.

Með þessum frábæru kórstjórum mun Helga Sigríður Kolbeins, fyrrum kórfélagi, sjá um píanóleik á æfingum og tónleikum ásamt Guðmundi Sigurðsyni organista. Við bjóðum einnig Helgu Sigríði hjartanlega velkomna til starfa.

Nánar um æfingatíma og skráningu í kóranna má finna hér:

https://hafnarfjardarkirkja.is/barna-ungingakor/

Brynhildur Auðbjargardóttir hóf tónlistarnám sitt í Kór Öldutúnsskóla þar sem hún söng undir stjórn Egils Friðleifssonar. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1989 og stundaði síðar framhaldsnámi í söngkennslufræðum og aðferðafræði kórstjórnar í Tónlistarháskóla Noregs. Lokaritgerð hennar fjallaði um barnsröddina í kór. Einnig lagði hún stund á skipulag og stjórnun (tónlistarviðburða) við sama skóla. Brynhildur hefur kennt tónlist í leikskólum, grunnskólum og tónlistarskólum ásamt því að halda námskeið fyrir starfsfólk leikskóla. Fyrir utan það að stjórna Kór Öldutúnsskóla þá hefur Brynhildur stjórnað Ískórnum í Ósló,  Kvennakór Hafnarfjarðar og Kvennakór Öldutúns. Hún var kórstjóri Barnakórs kirkjunnar á árunum 1990 – 1995.

Helga Sigríður Kolbeins er nemandi í Menntaskóla í tónlist og stefnir á framhaldspróf þar á þessu skólaári. Hún hefur unnið til verðlauna í keppnum hér heima sem og erlendis.

Helga Loftsdóttir hóf tónlistarnám sitt sem fiðlunemandi í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og söng í barna- og ungmennakórum undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg og Margrétar Pálmadóttur. Árið 1997 lauk hún tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og hefur síðan lokið Markþjálfunar námi og meistaranámi í Forystu og stjórnun. Helga hefur kennt tónlist í grunn- leik- og tónlistarskóla, er höfundur námsefnis í tónmennt og hefur tekið þátt í að skipuleggja fjölmenn íslensk og norræn kóramót. Hún hefur stýrt nokkrum kórum frá árinu 1995 lengst af sem kórstjóri Barna- og unglingakórs í Hafnarfjarðarkirkju.

 

 

 

 

 

Scroll to Top