Minningarstund og sögusýning 9. febrúar

Minningarstund og sögusýning í Hafnarfjarðarkirkju 9. febrúar 2020 kl. 11 um Halaveðrið í febrúar 1925 og þá sem fórust með togaranum FM Robertson.
Sunnudaginn 9. febrúar n.k. kl. 11 verður minningarstund í Hafnarfjarðarkirkju um skipverjana 35 sem fórust með Field Marshal Robertson. Þar verða nöfn þeirra lesin upp, aldnir sjómenn og sjómannsekkja munu tendra kerti fyrir hvern og einn við minningartöfluna. Breski sendiherrann les upp nöfn bresku sjómannanna. Einnig verður kveikt á kerti fyrir þá sjómenn er fórust með Leifi heppna og Sólveigu. Sungnir verða sálmar sem sungnir voru við minningarathafnirnar 10. mars 1925.
Á eftir verður opnuð sýning sem sr Þorvaldur Karl Helgason og Egill Þórðarson hafa undirbúið. Þar koma fram nöfn þeirra sem fórust með Field Marshal Robertson og ýmsar upplýsingar um Halaveðrið. Verið öll velkomin. Boðið verður upp á léttar veitingar. 

Nánar um minningarstundina og sýninguna.

Í Halaveðrinu 7. til 8. febrúar árið 1925 fórst togarinn Field Marshal Robertson, sem gerður var út frá Hafnarfirði af ensku útgerðinni Hellyers bræðrum í Hull og með honum 35 menn. Í sama veðri fórst togarinn Leifur Heppni frá Reykjavík og með honum 33 menn og vélbáturinn Sólveig frá Ísafirði fórst við Stafnes og með honum 6 menn. Fleiri létust á sjó og á landi í óveðrinu. 16 togarar voru á Halamiðum er veðrið skall á og börðust um 500 sjómenn þar fyrir lífi sínu. Mikil leit fór fram að togurunum tveimur frá 12. febrúar til 5. mars 1925. Þegar þeir voru taldir af fóru fram minningarstundir þann 10. mars m.a. í Hafnarfjarðarkirkju.  Á allra heilagra messu í nóvember 1926 afhenti útgerð Field Marshal Robertson Hafnarfjarðarkirkju minningartöflu um þá sex bresku og tuttugu og níu íslensku skipverja sem fórust með skipinu.
Séra Þorvaldur Karl Helgason hefur unnið að því í marga mánuði að grafast fyrir um ætt og uppruna þeirra íslensku sjómanna er fórust með Field Marshal Robertson, afla gagna um landsöfnun sem fór af stað í kjölfar sjóslysanna, minningarathafnirnar o.fl. Þorvaldur flytur hugleiðingu við minningarstundina og greinir frá því sem hann hefur tekið saman um fjölskyldur skipverjanna. Á sýningu sem opnuð verður eftir stundina er á veggspjöldum gerð grein fyrir hverjum og einum þeirra sem fórst með Field Marshal Robertson, fjölskyldu viðkomandi o.fl.
Egill Þórðarson, loftskeytamaður, hefur unnið veggspjöld um Halaveðrið og flytur hann ávarp við opnun sýningarinnar. Hann naut aðstoðar Kristins Halldórssonar við að gera samanburð á Field Marshal Robertson og 45 metra nútíma línubáti hvað stærð og sjóhæfni varðar, ásamt því að fjalla um fiskislóðina, veðurþjónustuna, fjarskiptin og áföllin. Á öðru spjaldi, sem gert var með aðstoð Trausta Jónssonar veðurfræðings, má sjá veðurathuganir og spár daginn sem Halaveðrið brast á, ásamt nýlegri endurgreiningu á Halaveðrinu gerða af bandarísku haf- og loftfræðistofnuninni NOAA. Þriðja spjaldið sýnir leitirnar þrjár að Field Marshal Robertson og Leifi Heppna sem stóðu frá 12. febrúar til 5. mars, þar sem danska varskipið Fylla og yfir 20 togarar tóku þátt. Egill komst yfir leiðarbók Fyllu á skjalasafni Kaupmannahafnar og gat því sett út siglingu skipsins í leitunum.
Þó svo að margt hafi verið skrifað um Halaveðrið þá hafa fjölmargar upplýsingar sem Þorvaldur Karl og Egill hafa aflað síðustu mánuði og sjá má á ofangreindri sýningu ekki verið aðgengilegar áður.

Hafnarfjarðarkirkja

Til staðar fyrir íbúa Hafnarfjarðar í blíðu og stríðu í yfir 100 ár.

Nýjustu færslurnar

Fylgstu með á Facebook

Scroll to Top