Krýsuvíkurkirkja vígð á Hvítasunnu

Krýsuvíkurkirkja vígð á Hvítasunnu

Sunnudaginn 5. júní á Hvítasunnudag kl. 14:00 verður nýsmíðuð Krýsuvíkurkirkja vígð. Vinfélag Krýsuvíkurkirkju hefur staðið fyrir byggingu kirkjunnar en öll smíði var á vegum Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskóla Íslands og jafnframt Þjóðminnjasafns Íslands. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, biskup, mun vígja kirkjuna og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, sr. Gunnþór Þ. Ingason, sem hafði umsjá með fyrri Krýsuvíkurkirkju sem helgidómi og sr. Jónína Ólafsdóttir, sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju, þjóna að vígslunni með biskupi. Eyjólfur Eyjólfsson og Þóra Björnsdóttir sjá um tónlistina.

Fyrri Krýsuvíkurkirkja brann í ársbyrjun 2010, en hún var byggð 1857. Sú kirkja var að falli komin um miðja síðustu öld þegar Björn Jóhannesson forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar stóð fyrir endurreisn hennar. Krýsuvíkurkirkja var endurvígð á Hvítasunnudegi 1964 eftir endurreisnina. Það er því táknrænt að vígsla nýju kirkjunnar, sem er nákvæm eftirmynd þeirrar sem byggð var 1857, eigi sér stað á Hvítasunnu. Krýsuvíkurkirkja rúmar ekki nema 40 manns í sæti og þar af leiðandi verða eingöngu þeir sem hafa hlutverki að gegna í vígslumessunni auk náinna velunnara kirkjunnar innan dyra. Öllum sem vilja gefst þó kostur á því að fylgjast með vígslumessunni utan dyra, því að hátölurum verður komið þar fyrir, og geta líka gengið inn í kirkjuna undir lok vígslunnar og neytt þar helgrar kærleiksmáltíðar og tekið þannig virkan þátt í vígslumessunni. Eftir vígsluna verður boðið til kirkjukaffis í Sveinshúsi í Krýsuvík. Streymt verður frá athöfninni: https://youtu.be/9VJpA-1TUYY

Hægt verður jafnframt að fylgjast með steymisútsendingu frá vígslumessunni á stóru tjaldi í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, og þar verður boðið upp á kirkjukaffi. Strandberg verður opnað vegna útsendingarinnar kl. 13.30. Ánægjulegt væri að sem flestir gætu fylgst með vígslu Krýsuvíkurkirkju, annaðhvort í Krýsuvík, eða í Safnaðarheimilinu Strandbergi.

Scroll to Top