Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja

Mynd: Sr. Gunnþór Þ. Ingason og sr. Jónína Ólafsdóttir við leiði Sveins Björnssonar, listmálara. Árni Sæberg tók myndina sem og  myndirnar hér að neðan.

Í Krýsuvík getur fyrst um prestskylda alkirkju í kirknaskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá árinu 1203. Var það Maríukirkja, helguð Maríu guðsmóður. Krýsuvík varð snemma stórbýli og því ekki ólíklegt að þar hafi risið bændakirkja fyrir nefndan tíma en um það eru ekki heimildir.

Þegar Jón Ingimundarson, útvegsbóndi á Stokkseyri, keypti Krýsuvík af Skálholtsskóla sumarið 1787 stóð þar lúin torfkirkja. Hann lét byggja timburkirkju árið 1789 sem stóð til ársins 1857 en þá var reist var sú timburkirkja sem sem stóð til árbyrjunar 2010.

Timburkirkja þessi stóð því í eina og hálfa öld. Hún þótti vera fremur látlaus smíði og lítið í hana lagt. Fékk hún þær umsagnir frá próföstum að hún væri fábreytileg, lítilfjörleg og fáskrúðug. Umhirðu var einnig ábótavant. Krýsuvíkurkirkja var lögð niður árið 1929 og afhelguð. Eftir þennan tíma var kirkjan m.a. notuð til íbúðar um tíu ára skeið. Kirkjan var að falli komin um miðja síðustu öld þegar Björn Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, stóð fyrir endurreisn hennar. Krýsuvíkurkirkja var endurvígð á hvítasunnudegi 1964 eftir endurreisnina. Sama ár færði Hafnarfjarðarbær kirkjuna Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu.

Eftir endurvígslu voru guðsþjónustur aðeins í undantekningartilvikum haldnar í Krýsuvíkurkirkju fram undir aldarlok. En kirkjan varð strax eftirsóttur áningarstaður þeirra sem gerðu sér ferð til Krýsuvíkur enda var hún í alfaraleið. Hún lét töluvert á sjá og viðhald lítið. Hafist var handa við endurbætur árið 1986. Eftir hvatningu Sveins Björnssonar listmálara, var áframhaldið með viðhald og viðgerðir undir lok síðustu aldar. Upp úr aldamótum var stefnt að því að hefja Krýsuvíkina og þar með einnig Krýsuvíkurkirkju, til vegs og virðingar. Sveinshús var opnað almenningi, en þar hafði Sveinn listmálari vinnustofu sína um árabil. Þarna var mörkuð framtíðarsýn sem olli þáttaskilum á þessu svæði.

Það var mikið áfall er Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola þann 2. janúar 2010. Í kjölfar þeirra tíðinda var augljóst að margir báru sterkar taugar til kirkjunnar. Ákveðið var að ráðast í endursmíði kirkjunnar. Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju sem Jónatan Garðarsson leiddi, með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Ný kirkja var smíðuð af nemendum og kennurum Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, og lauk smíði hennar í sumarið 2020. Í október sama ár var hún flutt til Krýsuvíkur frá gamla Iðnskólanum í Hafnarfirði.

Á hvítasunnudag, 5. júní 2022 var nýsmíðuð Krýsuvíkurkirkja vígð og Vinafélag Krýsuvíkurkirkju afhenti Hafnarfjarðarkirkju þessa fallegu kirkju. Víglsuathöfnin var hátíðleg. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti, vígði kirkjuna og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, sr. Gunnþór Þ. Ingason, sem hafði umsjá með fyrri Krýsuvíkurkirkju sem helgidómi og sr. Jónína Ólafsdóttir, sóknarprestur Hafnarfjarðarkirkju, þjónuðu í vígslunni. Eyjólfur Eyjólfsson og Þóra Björnsdóttir sáu um tónlistarflutning í athöfninni.

Messuskrá og ljóð

Hvítasunnudag 5. júní 2022

Ljóð eftir séra Gunnþór Þ. Ingason ort í tilefni vígslu Krýsuvíkurkirkju

Scroll to Top