Sr. Aldís Rut Gísladóttir ráðin

Sr. Aldís Rut Gísladóttir ráðin

Í vikunni sem leið var valinn nýr prestur til starfa í Hafnarfjarðarkirkju úr hópi sjö umsækjanda. Sr. Aldís Rut Gísladóttir varð fyrir valinu og er fastráðin frá 1. febrúar 2023 en hún hefur þjónað í prestakallinu í afleysingu síðan um vor 2022.

 

Nú eru því þrír prestar starfandi við Hafnarfjarðarkirkju, sr. Jónína Ólafsdóttir, sóknarprestur í heilu starfi, sr. Sighvatur Karlsson, prestur í hálfu starfi og sr. Aldís Rut Gísladóttir, prestur í heilu starfi.

 

Sr. Aldís Rut Gísladóttir er fædd á Sauðárkróki 5. febrúar 1989 og ólst upp í Glaumbæ í Skagafirði, yngst fjögurra systkina, dóttir Gísla Gunnarssonar vígslubiskups á Hólum og Þuríðar Kristjönu Þorbergsdóttur sjúkraliða.

 

Aldís Rut lauk mag. theol prófi frá Háskóla Íslands 2017 og útskrifaðist með ágætiseinkunn en sama ár lauk hún yogakennaranámi.

 

Á síðustu árum hef Aldís Rut verið iðin við að bæta við sig auka menntun, diplómagráðu í sálgæslu sem og mastersgráðu í guðfræði en hún fléttaði saman tvö áhugamál í mastersritgerð sinni þar sem hún fjallaði um sálgæsluna og Gamla testamentið. Einnig hóf hún nám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf árið 2021 og hyggst ljúka því á næstu misserum.

 

Aldís Rut Gísladóttir vígðist sem prestur 2019 við Langholtskirkju og starfaði þar til ársins 2022 en þá hóf hún störf í Hafnarfjarðarkirkju í afleysingu. Aldís Rut hefur unnið frá unga aldri innan kirkjunnar, aðstoðað við sunnudagaskóla, verið æskulýðsfulltrúi í Guðríðarkirkju ásamt því að sjá um foreldramorgna og leitt djúpslökun í Grafarvogskirkju. Aldís Rut hefur verið að þróa djúpslökun með trúarlegu ívafi og kennt það í nokkrum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu.

 

Í Hafnarfjarðarkirkju hefur Aldís Rut verið með foreldramorgna og hyggst efla það starf mikið. Einnig hefur hún hug á að flétta yogamenntun sína og reynslu inn í starfið og tengja það við sálgæsluna.

 

Aldís Rut er gift Ívari Björnssyni, bílasmiði, og eiga þau hjónin tíu ára brúðkaupsafmæli í sumar saman eiga þau þrjú börn, tvo drengi og eina stúlku.

 

Við bjóðum Aldísi Rut hjartanlega velkomna til starfa í Hafnarfjarðarkirkju og óskum henni velfarnaðar í starfi.

 

Scroll to Top