Minningarstund um skipverjana sem fórust með SVIÐA GK 7
Sunnudaginn 21. nóvember 2021, kl. 11, verður haldin minningarstund í Hafnarfjarðarkirkju um skipverjana 25 sem fórust með togaranum SVIÐA GK 7 fyrir 80 árum, 2. desember 1941.
Kveikt verður á kerti fyrir sérhvern skipverja og nöfn þeirra lesin upp.
Séra Þorvaldur Karl Helgason flytur hugleiðingu. Prestar Hafnarfjarðarkirkju, séra Jónína Ólafsdóttir og séra Jón Helgi Þórarinsson, leiða minningarstundina. Félagar úr Barbörukórnum syngja. Organisti og kórstjóri Guðmundur Sigurðsson.
Togarinn SVIÐI var gerður út frá Hafnarfirði og margir skipverjanna áttu heimili þar. Alls fórust 25 sjómenn, 14 þeirra voru kvæntir, 44 börn misstu föður og fimm fósturföður sinn. Sumir þeirra voru fyrirvinna foreldranna. Þrír skipverjanna voru yngri en 20 ára, sá elsti var 52 ára, en flestir á aldrinum 25-49 ára. Minningarstund var haldin í Hafnarfjarðarkirkju 17. des. 1941, skömmu eftir sjóslysið.
Eftir minningarathöfnina í Hafnarfjarðarkirkju á sunnudaginn verður opnuð sýning í safnaðarheimilinu um skipverjana sem fórust með SVIÐA GK 7 og fjölskyldur þeirra, um skipið, veðrið, leitina og hætturnar sem steðjuðu að sjómönnum á tímum heimstyrjaldar.
Séra Þorvaldur Karl Helgason og Egill Þórðarson, loftskeytamaður, hafa unnið að sýningunni.
Minningarstundin og sýningin er öllum opin.
Hafnarfjarðarkirkja
Til staðar fyrir íbúa Hafnarfjarðar í blíðu og stríðu í yfir 100 ár.