Sálmur dagsins – Allt hið fagra foldarskraut
Sálmur dagsins – Allt hið fagra foldarskraut
Sálmur dagsins – nr. 2 flytjendur Guðmundur organisti og félagar í Barbörukórnum!
Þá kemur annað sumarmyndbandið af ellefu sem sent er í gegnum vef kirkjunnar.
Sálmurinn Allt hið fagra foldarskraut er mjög þekktur, sérstaklega á Bretlandseyjum. Frumtextinn, All Things Bright and Beautiful, er eftir skáldkonuna Cecil Frances Alexander (1818-1895) og birtist fyrst árið 1848 í bókinni „Sálmar fyrir börn“.
Laglínan er talin eiga uppruna sinn í enskum sveitadansi frá 17. öld, en höfundur lagsins er skráður William Henry Monk (1823-1889) sem hefur samið fleiri mjög þekkt sálmalög.
Sálmurinn er sérstakur að því leyti að meginstef hans er alltaf sungið sem viðlag milli allra sex erinda sálmsins. Sálmurinn er lofgjörð til allrar sköpunarinnar, dýra, náttúru og fólks. Þýðing sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar var frumflutt í vormessu í Seltjarnarneskirkju í maí 2016. Þýðing hans er einstaklega falleg og rennur vel í einfaldleika sínum og dýpt.
Sálmarnir ellefu sem hér eru kynntir fram til 4. maí hafa allir verið valdir í sálmabók kirkjunnar sem væntanleg er á þessu ári, og eru þeir meðal nýs efnis bókarinnar. Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, og sálmabókarnefnd, völdu sálmana ellefu, sem ekki hafa birst áður í sálmabókum; ný íslensk lög og textar, ný lög við eldri sálma, nýjar þýðingar við þekkt erlend sálmalög, sálmar sem hafa fengið ný og söngvænni lög, sumarsálmar, nýr skírnarsálmur, sálmur um ábyrgð okkar á jörð og umhverfi svo nokkuð sé nefnt.
Flytjendur: Félagar í Barbörukór Hafnarfjarðarkirkju: Hulda Dögg Proppé, Hugi Jónsson, Þórunn Vala Valdimarsdóttir. Organisti: Guðmundur Sigurðsson. Upptaka í Hafnarfjarðarkirkju. Upptökustjórn: Friðjón Jónsson.
hsh/mb
Allt hið fagra foldarskraut
Lag: William H. Monk
Texti: Kristján Valur Ingólfsson
Hafnarfjarðarkirkja
Til staðar fyrir íbúa Hafnarfjarðar í blíðu og stríðu í yfir 100 ár.