Kári Þormar hefur verið ráðinn organisti og tónlistarstjóri Hafnarfjarðarsóknar en hann hefur þjónað þar í afleysingum undanfarna mánuði.
Kári stundaði nám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og lauk síðar burtfarar- og píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og burtfararprófi í orgelleik frá Tónskóla þjóðkirkjunnar 1993. Þá lauk hann framhaldsnámi í kirkjutónlist við Robert Schuman Hochschule í Düsseldorf, Þýskalandi, undir handleiðslu Hans Dieters Möllers í orgelleik og Volkers Hempfling í kórstjórn. Kári gegndi stöðu Dómorganista í Reykjavík um árabil auk þess sem hann hefur starfað við aðrar kirkjur.
Góðir tónlistarstjórar og organistar eru mikilvægir starfsmenn í kirkjunum enda getur tónlistin sagt svo margt sem ekki verður að orðum komið.
Kári segir organistastarfið vera fjölbreytt og afar gefandi. Í því felst umgengni við fólk á hátíðarstundum, gleðistundum og en líka við sorgarstundir. Hann segir það mikið tilhlökkunarefni að fá að starfa með því frábæra fólki sem starfar í Hafnarfjarðarkirkju og með söfnuðinum. Aðstaðan er algerlega til fyrirmyndar en tvö af bestu orgelum sem við Íslendingar eigum eru í kirkjunni. Þar að auki starfa frábærir barna, unglinga, ungmannakórar við kirkjuna ásamt Barbörukórnum, sem er einn besti kammerkórinn á landinu.
Kári segist koma að mjög góðu búi og bætir við: „Hafnarfjarðarkirkja hefur alltaf átt samastað í hjarta mínu og er áhrifavaldur í mínu lífi. Ég er fæddur og uppalin við Lækjargötuna og ein af æskuminningum mínum er úr messu í kirkjunni þar sem ég horfði upp á orgelloftið og fylgdist með Páli Kr. og kórnum. Langafi minn, Steingrímur Torfason, var forvígismaður að byggingu kirkjunnar og fyrsti formaður sóknarnefndar og hjá ömmu minni, Sigurveigu Steingrímsdóttur fór ég fyrst að fikta við píanóið og varð til þess að ég var sendur í tónlistarnám. Sjálfur söng ég í Kór Hafnarfjarðarkirkju, og að áeggjan Helga Bragasonar, þáverandi organista, og Jónasar Ingimundarsonar, píanókennara míns, valdi ég orgelleik og kirkjutónlist sem framtíðarstarf.
Við í Hafnarfjarðarkirkju fögnum þess að fá Kára til liðs við okkur, við bjóðum hann hjartanlega velkominn og hlökkum til samstarfsins en fram undan eru fjölbreytt verkefni af ýmsum toga.