Góður gestur á sýninguna í safnaðarheimilinu

Góður gestur á sýninguna í safnaðarheimilinu

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kom í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju síðdegis í gær og skoðaði í rólegheitum sýninguna um sjóslysin sem urðu í byrjun árs 1959 undir leiðsögn Egils Þórðarsonar og Þorvalds Karls Helgasonar. Í aðdraganda sýningarinnar höfðu þeir Egill og Þorvaldur Karl fengið boð frá Guðna til Bessastaða þar sem þeir skiptust á gagnlegum upplýsingum.
 
Þann 11. febrúar síðastliðinn var minningarstund vegna slysanna haldin í Hafnarfjarðarkirkju en Guðni Th. tók þátt í þeirri stund ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur og fleirum góðum gestum.
 
Mikill fjöldi fólks tók þátt í minningarstundinni en einnig hafa margir lagt leið sína í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju undanfarna daga til þess að skoða sýninguna þar á meðal eru menn og konur sem misstu föður sinn í einu slysanna ung að aldri. Egill Þórðarson er gjarnan til staðar til þess að svara spurningum og veita leiðsögn.
 
Hægt verður að skoða sýninguna fram eftir vori og við hvetjum áhugasama til þess að kíkja við. Egill er yfirleitt á staðnum á þriðjudögum og fimmtudögum á milli kl. 13:00-15:00 en einnig er hægt að kíkja við á virkum dögum á milli kl. 10:00-16:00 eða eftir messur á sunnudögum.
 
Að standa fyrir svona viðburði hefur gildi hvað sálgæslu varðar en áföll sem þessi geta haft áhrif innan fjölskyldna sem berast á milli kynslóða.
 
Mikil vinna liggur að baki sýningunni og við erum þakklát Agli og Þorvaldi Karli fyrir að hafa sinnt þessu verkefni af heilindum og alúð. Einnig erum við þakklát forsetanum fyrir þann stuðning og einlægan áhuga sem hann hefur sýnt verkefninu.
 
 
 
Scroll to Top