Prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, sr. Hans Guðberg Albertsson, setur sr. Þuríði Björgu Wiium Árnadóttur í embætti prests í Hafnarfjarðarprestakalli sunnudaginn 26. janúar kl. 11:00. Sr. Jónína Ólafsdóttir, sóknarprestur og sr. Sighvatur Karlsson prestur Hafnarfjarðarkirkju, þjóna einnig fyrir altari. Kári Þormar leikur á orgel og stjórnar söng Barbörukórsins.
Sunnudagaskólinn er á sama tíma í safnaðarheimilinu.
Verið öll hjartanlega velkomin til messu og í sunnudagaskóla.
Sr. Þuríður tók til starfa í nóvember síðastliðnum og er það mikið gleðiefni að fá hana til starfa með þeim góða starfsmannahópi sem þar er.
Sr. Þuríður Björg er fædd á Akureyri þann 21. nóvember árið 1989 og uppalin á Vopnafirði.
Foreldrar hennar eru Árni Magnússon, rafvirkjameistari, og Ásgerður Sigurðardóttir sem er að njóta þess að vera eldriborgari.
Þuríður er yngst þriggja systkina.
Hún varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2009 og útskrifaðist með embættispróf frá Guðfræði og trúarbragðadeild Háskóla Íslands 2017 og vígðist sem sóknarprestur til Hofsprestakalls í Vopnafirði sama ár.
Þuríður Björg lauk diplómugráðu í sálgæslu árið 2021.
Hún hefur starfað sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum í afleysingu frá því í nóvember 2023.
Þuríður Björg sat í stjórn Lútherska heimssambandsins fyrir hönd þjóðkirkju Íslands árin 2017-2023 og hefur setið á kirkjuþingi síðan 2020.
Hún situr nú í stjórn þjóðkirkjunnar.
Á árum sínum á Vopnafirði hefur hún verið formaður veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár, setið í stjórn veiðifélags Sandvíkur og í stjórn Kvenfélagsins Lindarinnar.
Þuríður Björg er í sambúð með Ólafi Ragnari Garðarssyni, fjármálaverkfræðingi og framkvæmdarstjóra Angling IQ.
Þau eiga tvö börn 10 og 11 ára og eru búsett í Mosfellsbæ.