Elsku Bylgja Dís Gunnarsdóttir kvaddi þennan heim þann 3. september, eftir erfið veikindi.
Bylgja starfaði hér við Hafnarfjarðarkirkju síðastliðin 8 ár og hafði einstakan metnað fyrir safnaðarstarfi kirkjunnar, fylgdi hugmyndum sínum eftir og gerði það vel. Hún var einlæg trúmanneskja, hlý og næm, og átti í sérstöku sambandi við öll börn sem sóttu kirkjuna. Henni var mikið í mun að börnin upplifðu sig heima í kirkjunni, fengju verkefni í helgihaldinu til jafns við fullorðna og fengju hlýjar móttökur.
Bylgja sinnti einnig auglýsingamálum fyrir Hafnarfjarðarkirkju af mikilli fagmennsku undanfarin ár og miðlaði þar af sköpunargáfu sinni og listfengi. Hún lagði metnað og alúð í öll sín störf í þágu kirkjunnar og er henni hér þakkað af heilum hug fyrir störf sín við Hafnarfjarðarkirkju.
Starfsfólk og sóknarnefnd votta ástvinum Bylgju hjartans samúð. Guð blessi minningu Bylgju Dísar.